Viðskipti innlent

Mesta lækkun sem hér hefur orðið á markaði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Rýnt í stöðuna á markaði Miðlarar Kaupþings sjást hér fyrir nokkru fylgjast með þróun markaða. Í gær voru met slegin, bæði hvað varðar mestu lækkun á markaði og mestu veikingu krónunnar á einum degi.
Rýnt í stöðuna á markaði Miðlarar Kaupþings sjást hér fyrir nokkru fylgjast með þróun markaða. Í gær voru met slegin, bæði hvað varðar mestu lækkun á markaði og mestu veikingu krónunnar á einum degi. Fréttablaðið/Pjetur
Lækkun á hlutabréfamarkaði er orðin meiri en þegar netbólan brast. Áhættufælni fjárfesta á alþjóðavísu og dræmt aðgengi bankanna að erlendri mynt grefur undan gengi krónunnar. Hún hefur ekki fallið jafnskarpt áður á einum degi.

Skyndilausn til styrktar krónunni er ekki í augsýn. Meiri gjaldeyrisforði myndi hjálpa Seðlabankanum að liðka til á peningamarkaði.

Gengi krónunnar lækkaði um nálægt því sjö prósent í gær og hefur ekki fallið jafnmikið á einum degi frá því gengi hennar var gefið frjálst á markaði. Þá lækkuðu hlutabréf skarpt í gær og er lækkun frá hæsta gengi í sumar orðin meiri en lækkunin sem varð á markaði þegar net­bólan sprakk árið 2000.

Gengisfall hávaxtamynta um heim allan í gær er rakið til áhættufælni fjárfesta í kjölfar fregna af óförum bandaríska bankans Bear Stearns, en hann var seldur á „brunaútsöluverði“ eftir að hafa tapað miklu á undirmálslánum þar í landi.

Þá eykur á vandann dræmt aðgengi íslenskra fjármálastofnana að erlendu lausafé. Þó svo að mikill vaxtamunur kunni að ýta undir viðskipti með krónubréf eru bankar ófúsir að láta erlenda mynt í staðinn fyrir krónur nema gegn afslætti. Því er minni hvati fyrir fjárfesta að standa í slíkum viðskiptum, sem að öðrum kosti hefðu stutt við gengi krónunnar.

„Maður vonar auðvitað að þessu mikla umróti á alþjóðamörkuðum fari að linna,“ segir Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans. Hún segir þó erfitt að spá þar um.

„Megi menn eiga von á fréttum á borð við þessar af Bear Stearns verður þetta erfitt áfram.“ Mestu máli hvað varðar framvindu hér heima segir hún hins vegar skipta hvaða skilaboð Seðlabanki Íslands sendi frá sér.

„Stýrivextir eru bara ein hliðin á þessu. Það sem seðlabankar heims gera nú er að reyna að tryggja aðgang að lausafé, ekki bara í heimamynt heldur líka í erlendum myntum. Það var út af þessu sem seðlabankar G-10 landanna gerðu sín á milli gjaldeyrisskiptasamninga til að bankar í Ameríku hefðu aðgang að evrum og öfugt.“

Samninga sem þessa segir Edda Rós vera trúverðugustu leiðina til að tryggja aðgang banka að lausu fé í mynt annarra landa og kveður einsýnt að hér þurfi því að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.

„Þarna myndi maður vilja sjá Seðlabankann virkari. Í þessu svakalega erfiða árferði á lánamörkuðum þarf okkar banki að vera mjög virkur og reyna að tryggja aðgang bankanna að, ekki bara innlendu fé, heldur erlendu líka,“ segir Edda Rós.

Í viðtali við Útvarpið í gær sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri nauðsynlegt að fara varlega í því efnahagsárferði sem nú ríkti og kvað ljóst að horfur á vaxtalækkun hefðu versnað.

Greiningardeild Glitnis sendi í gær frá sér spá þar sem gert er ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum í 13,75 þar til í júlí, en þá myndi Seðlabankinn hefja vaxtalækkunarferli.

Greining Glitnis gerir ráð fyrir veikri krónu fram á sumar, en að hún taki að styrkjast í haust með bættum efnahagshorfum þjóðarbúsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×