Viðskipti innlent

Ræðst síðar í vikunni hvort samningur við Glitni heldur

Mikil óvissa ríkir um framtíð Glitnis og segir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að það komi í ljós þegar líður á vikuna hvort samningurinn um yfirtöku á meirihluta í bankanum haldi.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að samingurinn milli ríkisins og Glitnis um yfirtöku á 75 prósenta hlut í bankanum væri öruggur og ríkið væri skaðabótaskylt ef það félli frá honum. Lögmenn Glitnis eru nú að skoða réttarstöðu bankans þróist mál á þann veg.

Málið virðist síður en svo fast í hendi, en Sindri Sindrason, fréttamaður Markaðarins, spurði Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, út í það í morgun. Össur sagði að málin skýrðust þegar liði á vikuna.

Aðspurður sagði Össur ekkert óeðlilegt við það að Kaupþing hefði fengið lán frá Seðlabankanum en ekki Glitnir. Seðlabankinn hefði sagt að veð Glitnis hefði að mati Seðlabankans ekki verið fullnægjandi og það væri ekki þannig að ef einn fengi lán þá fengju allir lán.

Sagðist Össur hafa staðið frammi fyrir því að bankamenn hefðu beðið um lán nánast út á andlitið en það dygði honum ekki sem gæslumanns fjármuna skattborgaranna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×