Erlent

Segja ísraelska herinn hafa hindrað sjúkraflutningamenn

Frá útför Waled Fareed í Nablus í dag.
Frá útför Waled Fareed í Nablus í dag. MYND/Eva Hauksdóttir

Eva Hauksdóttir sem er við hjálparstörf á vegum International Solidarity Movement í Palestínu ásamt systur sinni segir að ísraelski herinn hafi hindrað með táragasi og hljóðsprengjum að maður sem hermenn skutu í gær fengi læknisaðstoð.

Hermenn réðust inn í íbúðarhús í borginni Nablus í gær til að handtaka 22 ára Palestínumann sem grunaður var um vopnaeign. Í aðgerðunum var Palestínumaðurinn Waled Fareed skotinn tvívegis í læri en hann var gestur í matarboði á heimili hins grunaða. Eva segir sjónarvotta sammála að Waled hafi ekki fengið neina viðvörun áður en hann var skotinn.

Samkvæmt Evu segir bílstjóri sjúkrabifreiðar sem kom a staðinn að hermenn hafi hindrað sjúkraflutningamenn þegar þeir nálguðust Waled og beittu til þess bæði hljóðsprengjum og táragasi. Engum lækni mun hafa verið hleypt nálægt Waled á meðan að honum blæddi út fyrir utan heimili sitt.

Eva og systir hennar voru viðstaddar útför Waled sem fór fram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×