Skoðun

Gleðilega þjóðhátíð

Oddný Sturludóttir. skrifar

Saga hverrar þjóðar geymir frásagnir af landnemum. Kunnasta frásögn okkar Íslendinga er af landnemunum sem héldu vestur um haf til Kanada um aldamótin 1900. Stór hópur Íslendinga hélt til Brasilíu á svipuðum tíma í leit að betra lífi og á áttunda áratug síðustu aldar mynduðust stórar landnemabyggðir Íslendinga á Norðurlöndunum.

Íslenskir landnemar eru yfirleitt í kringum 25.000 talsins; í Evrópu, Bandaríkjunum og um allan heim. Landnemar eiga það sammerkt að taka sig upp og flytjast milli landa í eftirsókn eftir menntun, reynslu, starfi við hæfi, betri lífskjörum eða hreinni ævintýraþrá. Sumir fylgja fjölskyldu sinni og ástvinum, aðrir koma sem flóttamenn og öðlast mun betri lífsgæði enda er bakland þeirra gjarnan ótryggt og aðstæður hörmulegar.

Landnemar á Íslandi hafa í gegnum tíðina ekki verið margir en undanfarna áratugi hefur breyting orðið á. Íslenskt samfélag verður æ fjölmenningarlegra og fjölbreytilegra og því fylgja nýjar áskoranir, ný verkefni, ný viðhorf.

Síðastliðna helgi var stofnað nýtt félag sem er tengt Samfylkingunni en þó opið öllum. Félagið heitir Landneminn og er fyrir nýbúa sem síbúa, landnema sem innfædda. Markmið Landnemans er að skapa samræður milli sí- og nýbúa, halda á lofti opinni umræðu um ávinning og áskoranir í fjölmenningarsamfélagi, að gera landnema sýnilegri í þjóðmála- og stjórnmálaumræðu en ekki síst að gera landnemum auðveldara fyrir að taka sín fyrstu skref inn í stjórnmálastarf. Í gegnum stjórnmálastarf geta þeir sannarlega haft áhrif á þá löggjöf sem varðar þeirra mál, þeir geta komið sínum sjónarmiðum áleiðis og haft áhrif á samfélagið sem þeir kusu að búa í.

Nú er lag. Samfylkingin er alþjóðasinnaður flokkur sem ber nú ábyrgð á málefnum innflytjenda í ráðuneyti félags- og tryggingarmála. Hið nýja félag Landneminn mun ekki láta sitt eftir liggja í ráðgjöf, samvinnu og hlutdeild.

Upplifun landnema fyrstu árin í nýju landi er keimlík. Tungumálið getur verið hart undir tönn, aðrar hefðir og önnur viðmið, einmanaleiki og lítið bakland fjölskyldu. Allir landnemar, íslenskir sem erlendir, vilja þó að vel sé tekið á móti þeim í nýju landi, að sjónarmið þeirra séu virt, að menning þeirra njóti sannmælis og að framlag þeirra til samfélagsins sé metið að verðleikum.

Gleðilega þjóðhátíð.

Höfundur er borgarfulltrúi

og situr í stjórn Landnemans.




Skoðun

Sjá meira


×