Viðskipti innlent

Fundar með bankastjórum í dag

Óli Kristján Ármannsson og Ingimar Karl Helgason skrifar
Forsætisráðherra Geir H. Haarde forsætisráðherra segir Evrópusambandsaðild ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og þar með ekki evru heldur.
Forsætisráðherra Geir H. Haarde forsætisráðherra segir Evrópusambandsaðild ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og þar með ekki evru heldur. Fréttablaðið/GVA
„Ég tel mjög ósennilegt að það sé grundvöllur fyrir slíku og ég tel ekki að það sé raunhæf leið,“ segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um að stjórnvöld semji við Evrópska seðlabankann um stuðning eða bakland vegna skuldbindinga íslenskra fyrirtækja í evrum.

Hins vegar er undirbúningur hafinn á vettvangi ríkisstjórnarinnar til að draga úr neikvæðum afleiðingum hugsanlegrar lánsfjárkreppu á alþjóðamörkuðum. „Eðlilegt er að vinna að slíku í góðu samstarfi við aðila á markaðnum,“ segir Geir Hilmar Haarde forsætisráðherra, sem upplýsti á Viðskiptaþingi í gær að í þessu skyni hafi forsvarsmenn fjármálafyrirtækja verið boðaðir á fund ríkisstjórnarinnar í dag.

Forsætisráðherra kvað könnun á afstöðu félaga Viðskiptaráðsins til gjaldmiðilsmála athyglisverða.

„Hins vegar ber umræðan að undanförnu um bága stöðu krónunnar að mínum dómi nokkurn keim af þeim tilteknu aðstæðum sem nú er við að fást á fjármálamörkuðum og í alþjóðlegum efnahagsmálum,“ segir hann og áréttar að í raun séu kostirnir bara tveir, að halda krónunni og treysta efnahagslegan stöðugleika, eða ganga í Evrópusambandið og taka í framhaldinu upp evru.

„Það er einfaldlega ekki kostur að taka einhliða upp evru. Slíkt er ekki trúverðugt,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×