Erlent

Rice heimsækir Tbilisi

MYND/AP

Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna mun í dag heimsækja Tbilisi, höfuðborg Georgíu. Rice mun hitta Mikheil Saakashvili forseta Georgíu að máli og reyna til þrautar að ná lausn í deilum Rússa og Georgíumanna en hermenn ríkjanna hafa barist í Suður-Ossetíu undanfarið.

Þó er fastlega búist við því að utanríkisráðherrann muni ítreka stuðning Bandaríkjamanna við Georgíu í deilum ríkjanna en Bandaríkjamenn hafa sagt að framferði Rússa síðustu daga í landinu geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samband ríkjanna á komandi árum.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Robert Gates ítrekaði þó í gær að þrátt fyrir alvarleika málsins væri ekki inni í myndinni að Bandaríkin færu að skipta sér af málinu á hernaðarsviðinu. Það eykur síðan á spennuna á milli stórveldana að Pólverjar hafa undirritað samning sem gerir Bandaríkjamönnum kleift að koma á fót eldflaugavarnakerfi í landinu.

Bandaríkin fullyrða að kerfinu sé ætlað að verjast árásum frá ríkjum á borð við Norður-Kóreu og Íran en Rússar hafa hins vegar litið á kerfið sem beina ógnun við sig. Samskipti þessara fornu fjenda hafa því kólnað umtalsvert á nýjan leik eftir áralanga þíðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×