Erlent

Bush fordæmir einelti Rússa

George Bush Bandaríkjaforseti.
George Bush Bandaríkjaforseti. Mynd/AP

George Bush Bandaríkjaforseti hefur fordæmt Rússa fyrir einelti og ógnun í samskiptum sínum við Georgíu. Hann ítrekaði í dag stuðning sinn við Georgíu og sagði að Rússar þyrftu að standa við loforð sitt um að draga her sinn frá Georgíu.

Hann taldi þrætugjörn samskipti við Bandaríkin og Evrópu kæmu sér ekki vel fyrir Rússland. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú í Georgíu og mun leggja fyrir Mikhail Saakashvili, forseta landsins, vopnahléssamning. Saakashvili hefur sagst þurfa að skoða samninginn nánar áður en hann skrifi undir en Rússar krefjast þess að hann skrifi þegar undir.

Bush sagði einnig að aðeins Rússar gætu ákveðið fyrir hvort þeir vildu axla ábyrgð eða halda áfram stefnu sem myndi aðeins tryggja þeim átök og einangrun.

Nú þremur dögum eftir að vopnahlé átti að taka gildi eru rússneskar hersveitir enn langt inn á landsvæði Georgíumanna. Eru þær við stjórn í Gori og rússneskar sveitir eru einnig eru víðar í Georgíu samkvæmt fréttavef BBC.

Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, segir Rússa standa vörð um hagsmuni aðskilnaðarhéraðanna Suður-Ossetíu og Abkasíu. Til þess að geta gert það þurfi rússneskar sveitir að vera í Georgíu. Hann segist ekki vilja lenda í árekstrum við aðrar þjóðir en meginmarkmiðið sé að sinna þeirri friðargæslu sem þeir þurfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×