Erlent

Rússneskir hermenn misþyrmtu tyrkneskum blaðamönnum

Blaðamenn hafa fengið óblíðar móttökur hjá Rússum í Georgíu. Það hefur verið skotið á þá og bílum þeirra og myndavélum rænt.

Tyrkneska sjónvarpsstöðin NTV hefur birt myndir sem fréttamenn hennar tóku við landamæri Georgíu og Suður-Ossetíu. Það var skyndilega hafin skothríð á bíl þeirra. Þeir reyndu að bakka í burt en þá var skotið á dekkin og þau sprengd.

Mennirnir biðu í bílnum milli vonar og ótta, eftir að árásarmennirnir kæmu fram. Þeir reyndust vera rússneskir hermenn.

Tveir fréttamannanna særðust lítillega í skothríðinni. Sjónvarpsstöðin segir að þegar þeir voru komnir út úr bílnum, með uppréttar hendur hafi rússneskir hermenn misþyrmt þeim.

Þeir voru svo yfirheyrðir í margar klukkustundir meðan sjónvarpsstöðin samdi við rússnesk yfirvöld um framsal þeirra. Þeim var svo loks sleppt úr haldi.

Þetta er langt frá því eina tilvikið. Margar fleiri sjónvarpsstöðvar hafa sýnt myndir frá því þegar rússneskir hermenn réðust á fréttamenn þeirra og skutu á þá.

Meðal annars var kona frá georgískri sjónvarpsstöð særð skotsári á handlegg þegar hún var að lýsa árásum á kollega sína frá annarri sjónvarpsstöð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×