Viðskipti innlent

Seðlabankinn segir vinnumarkaði að halda sig á mottunni

Greiningardeild Kaupþings banka segir að Seðlabankinn hafi sent aðilum vinnumarkaðarins skýr skilaboð um að halda sig á mottunni í komandi kjarasamningum. Vitnar deildin í Peningamál bankans sem gefin voru út samhliða tilkyningunni um óvænta stýrivaxtahækkun bankans.

„Í Peningamálum kemur skýrt fram að nýir kjarasamningar valda Seðlabankanum nokkrum áhyggjum enda hefur launaskrið verið töluvert að undanförnu. Af þeim sökum birtir Seðlabankinn fráviksspá í Peningamálum þar sem annars vegar er gert ráð fyrir talsverðri gengislækkun krónunnar og hins vegar áframhaldandi launaskriði á vinnumarkaði," segir m.a. í umfjöllun greiningar Kaupþings um málið.

„Að mati Greiningardeildar eru skilaboðin skýr: Ef næstu kjarasamningar munu hækka kauplag umfram það sem getur samræmst verðbólgumarkmiðinu, mun Seðlabankinn bregðast við með frekari vaxtahækkunum. Að öðrum kosti er ekki gert ráð fyrir frekari vaxtahækkunum nema gengi krónunnar gefi eftir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×