Enski boltinn

Beckham segir Ronaldo að vera áfram hjá Man. Utd.

Ronaldo tók við treyju númer 7 af Beckham þegar hann kom til Man. Utd. fyrir þremur árum.
Ronaldo tók við treyju númer 7 af Beckham þegar hann kom til Man. Utd. fyrir þremur árum. MYND/Getty

David Beckham hefur ráðlagt portúgalska vængmanninum Cristiano Ronaldo að fara ekki frá Manchester United þar sem hann sé með knattspyrnustjóra þar sem kann best allra að höndla leikmenn sem hafa lent í mótlæti, líkt og því sem Ronaldo varð fyrir eftir leik Englands og Portúgals á HM í sumar.

"Ronaldo er hjá réttu félagi. Hann er með knattspyrnustjóra sem kann að huga að leikmönnum sem hafa lent í sambærilegum uppákomum við þá sem hann lenti í eftir HM í sumar," sagði Beckham og átti þar við þá andúð sem enskir stuðningsmenn sýndu Ronaldo eftir þátt hans í brottvikningu Wayne Rooney í viðureign Englendinga og Portúgala í 8-liða úrslitum HM í Þýskalandi.

Beckham ætti að vita hvað hann talar um því hann lenti í sambærilegum málum eftir að honum var vikið af velli í 8-liða úrslitum HM 1998. Beckham segir Alex Ferguson hafa reynst sér afar vel í því mótlæti. "Ég hefði jafnvel ekki komist í gegnum þá reynslu ef ég hefði ekki notið stjórans, liðsfélaga minna og aðdáenda Manchester United. Ég á þeim allt að þakka," segir Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×