Viðskipti innlent

Formaður fasteignasala ósammála spá um verðlækkun á markaðinum

Ingibjörg Þórðardóttir formaður Félags fasteignasala segir að hún sé ósammála spá greiningar Landsbankans um að fasteignaverð lækki um 9% á næsta ári. Hún telur að markaðurinn verði í jafnvægi á næsta ári og að verðið muni hækka um allt að 5% yfir árið.

Í spá greiningar Landsbankans sem birt var í Vegvísi bankans fyrir helgina segir m.a. að Í hagspá þeirra frá í september spáðum við því að viðsnúningur yrði á fasteignamarkaði á næsta ári.

"Frá þeim tíma hafa stýrivextir verið hækkaðir um 0,45 prósentustig og vextir á íbúðalánum hafa hækkað um 0,45-0,9 prósentustig. Hærri vextir og erfið alþjóðleg skilyrði auka líkur á að þessi sýn okkar gangi eftir," segir í Vegvísi. "Líkur á snörpum viðsnúningi hafa sömuleiðis aukist, en við gerum ráð fyrir að fasteignaverð lækki um 9% að nafnvirði á næsta ári en standi nánast í stað árið 2009. Að sama skapi er ljóst að erfið skilyrði á lánsfjármörkuðum eru einnig til þess fallin að draga úr nýbyggingum og þar með létta á framboðsþrýstingi."

Ingibjörg segir að það hafi ekki verið mjög mikið að marka spár greiningardeilda bankanna á þessu ári, til dæmis hvað varðar hlutabréfa- og fjármagnsmarkaðinn.

"Ég á hinsvegar ekki von á að þær miklu hækkanir sem verið hafa á fasteignamarkaðinum á undanförnum árum haldi áfram," segir Ingibjörg. "Það verður hinsvegar ekki það sama upp á teningnum eins og til dæmis í Danmörku þar sem fasteignir hafa lækkað í verði. Íslendingar eru jú orðnir 312.000 talsins og einhverstaðar verður þetta fólk að búa."

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×