Viðskipti innlent

Hátt afurðaverð heldur útgerðinni á floti

Hátt verð sjávarafurða um þessar mundir heldur útgerðinni á floti. Raunar er afurðaverðið á erlendum mörkuðum í sögulegu hámarki.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að verð sjávarafurða hækkaði um 2,0% í október frá fyrri mánuði mælt í erlendri mynt . Afurðaverð á erlendum mörkuðum er í sögulegu hámarki og hefur hækkað um tæp 4% á síðustu tveimur mánuðum.

Sérstaklega er verð á botnfiskafurðum hátt um þessar mundir. Þessi útreikningur er byggður á nýlegum tölum Hagstofunnar á meðalverði allra tegunda sjávarafurða og á gengisbreytingum helstu gjaldmiðla.

Ytri aðstæður sjávarútvegsfyrirtækja eru fremur óhagstæðar um þessar mundir. Munar þar mestu um þorskkvótaniðurskurðinn á yfirstandandi fiskveiðiári. Auk þess er olíuverð hátt. Segja má að hátt afurðaverð í erlendri mynt valdi því að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja er enn þolanleg.

Almennt hefur framboð af villtum fiski ekki aukist á heimsvísu að undanförnu en eftirspurnin er hins vegar sterk. Mikil aukning í fiskeldi (m.a. í Asíu) veldur því hins vegar að heildarframboð af sjávarafurðum hefur verið nægilegt. Einhverjar vísbendingar eru um að hægja muni á hækkun afurðaverðs á næstunni, og í einhverjum tilvikum gæti orðið lækkun.

Gengisspá greiningar Glitnis gerir ráð fyrir nokkru veikari krónu en nú er á næsta ári. Horfur fyrir næstu misseri eru því skárri vegna þessa






Fleiri fréttir

Sjá meira


×