Viðskipti innlent

Viðskiptahalli 100 milljörðum minni á fyrstu níu mánuðum ársins

MYND/GVA

Viðskiptahalli á þriðja ársfjórðungi þessa árs var 31 milljarður króna sem er rúmum 17 milljörðum króna minna en á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð við útlönd og stöðu þjóðarbúsins í lok september. Meginskýring á þessum bata er viðsnúningur á jöfnuði þáttatekna að því er segir í tilkynningu Seðlabankans.

Þá sýna tölur Seðlabankans að viðskiptahallinn var um 110 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins sem er nærri helmingi minna en á sama tíma í fyrra þegar hann var rúmir 207 milljarðar.

Skuldir þjóðarbúsins við útlönd reyndust hins vegar nærri 1400 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs og höfðu aukist um 50 milljarða króna á fjórðungnum. Erlendar skammtímaskuldir hækkuðu um 445 milljarða króna á fjórðungnum og staða langtímalána hækkaði um 219 milljarða. Í lok september var gengi krónunnar 3 prósentum lægra en í lok júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×