Viðskipti innlent

Fjármálastofnanir forðast að lána yfir áramótin

Aðgengi að lausafé hefur þrengst til muna á fjármálamörkuðum undanfarið og virðast fjármálastofnanir forðast eins og heitan eldinn að lána yfir næstkomandi áramót.

GFjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis og þar segir að útlánsvextir til eins mánaðar snarhækkuðu á millibankamörkuðum í mörgum helstu mynta heims á fimmtudag, en frá og með þeim degi verða eins mánaðar útlán ekki endurgreidd fyrr en á nýju ári.

Hækkunin er þó ekki einskorðuð við mánaðarútlán, heldur hafa skammtímavextir almennt hækkað verulega á fyrstu dögum desembermánaðar.

Hækkun skammtímavaxta í aðdraganda áramóta er þekkt fyrirbæri á fjármálamörkuðum, en hreyfingarnar nú eru mun stærri en sést hefur undanfarin ár. Munur skammtímavaxta og stýrivaxta í bresku pundi er nú álíka mikill og þegar áhlaupið á Northern Rock stóð sem hæst. Í evru og bandarískum dollar er álagið hins vegar hærra nú en verið hefur síðan lausafjárkreppan hófst að áliðnu sumri.

Seðlabankar hafa brugðist við hækkandi álagi með auknu framboði peningamagns og Seðlabanki Evrópu bætti um betur og tilkynnti að skammtímaútlán til fjármálastofnana 19. desember næstkomandi yrðu til hálfs mánaðar í stað venjulegra vikulána til þess að auðvelda lántökur yfir áramót. Þessar aðgerðir hafa þó enn ekki megnað að slá á háa skammtímavexti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×