Viðskipti innlent

Tveggja milljarða tap vegna AMR-bréfa bókfært á 4. ársfjórðungi

MYND/Vilhelm

FL Group hefur selt stærstan hluta eignar sinnar í AMR, móðurfélagi American Airlines, en hlutur félagsins í AMR hefur lækkað um 15 milljarða króna á árinu. FL Group segir að salan styrki stöðu sjóða FL Group um tíu milljarða.

Hlutabréf í AMR hafa lækkað talsvert árinu og sendi Hannes Smárason, forstjóri FL Group, bréf til bandaríska félagsins í haust þar sem hann hvatti til skipulagsbreytinga, meðal annars með sölu vildarklúbbs félagsins. Það leiddi til þess að sögn FL Group að AMR ákvað að selja dótturfélag sitt American Eagle.

FL Group segir lækkun á bréfum AMR fyrst og fremst skýrast af mikill hækkun olíuverðs og spám markaðsaðila um minni hagvöxt í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að jákvæð skrefi hafi verið stigin af hálfu AMR telur FL Group að of mikil óvissa ríki um breytingar hjá félagi og hvenær þeim yrði hrint í framkvæmd.

Auk þess séu blikur á lofti um áframhaldandi hækkun olíuverðs og hugsanlegan samdrátt í bandarísku efnahagslífi. Í því ljósi var það ákvörðun félagsins að selja megnið af hlut sínum í AMR og skoða aðra fjárfestingakosti á markaði í kjölfarið, eins og segir í tilkynningu FL Group.

Í lok þriðja ársfjórðungs var markaðsvirði hlutar FL Group í AMR um 31,2 milljarðar króna. Á árinu 2007 hefur eignin lækkað um 15 milljarða króna, þar af hafa um 13 milljarðar nú þegar verið gjaldfærðir á fyrstu níu mánuðum ársins. Tveir milljarðar verða gjaldfærðir á fjórða ársfjórðungi.

FL Group átti 9,3 prósenta hlut í AMR fyrir söluna en á eftir sölu 1,1 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×