Viðskipti innlent

OR skilar hagnaði

Orkuveita Reykjavíkur var rekin með 6,4 milljarða króna hagnaði fyrstu níu mánuði þessa árs og jukust tekjur fyrirtækisins um 3,1 milljarð króna miðað við sömu mánuði ársins 2006.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var 7,3 milljarðar króna samanborið við 5,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Í tilkynniningu frá Orkuveitunni segir að horfur séu góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2007. Umsvif fari vaxandi og fjárfestingar séu miklar.

Stærsta einstaka verkefni OR er bygging nýrrar virkjunar á Hellisheiði, sem stóreykur eigin orkuvinnslugetu fyrirtækisins. Tveir fyrstu áfangar hennar þegar verið teknir í notkun.

Helstu tölur:

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skilaði 6.371 milljón króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 1.190 milljóna króna tap á sama tímabili árið áður.

Rekstrartekjur fyrstu níu mánuði ársins námu 15.414 milljónum króna en voru 12.326 milljónir króna á sama tímabili árið áður.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, var 7.310 milljónir króna á tímabilinu samanborið við 5.634 milljónir króna á sama tímabili árið áður.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 4.670 milljónir króna á tímabilinu, en voru neikvæðir um 5.750 milljónir króna á sama tímabili árið 2006.

Heildareignir þann 30. september 2007 voru 161.441 milljón króna en voru 139.977 milljónir króna í árslok 2006.

Eigið fé þann 30. september 2007 var 75.014 milljónir króna en var 69.359 milljónir króna í árslok árið 2006.

Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. september 2007 voru 86.427 milljónir króna samanborið við 70.618 milljónir króna í árslok 2006.

Eiginfjárhlutfall var 46,5% þann 30. september 2007 en var 49,6% í árslok 2006






Fleiri fréttir

Sjá meira


×