Viðskipti innlent

Þróun markaðarins þurrkar út lífeyrisréttindabónus

Skjólstæðingar Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafa notið góðs af ávöxtun sjóðsins á hlutabréfamarkaðinum undanfarin ár. Þróun markaðrins nú er hinsvegar í öfuga átt og eins og horfir eru engar líkur á lífeyrisréttindabónus eftir árið.

Samkvæmt upplýsingum frá Þorgeiri Eyjólfssyni framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna voru lífeyrisréttindi þeirra sem fá greitt úr sjóðnum aukin um 7% eftir árið í fyrra og um 4% eftir árið þar á undan. Þetta hefur þýtt að sá sem fékk 100.000 krónur greiddar úr sjóðnum fyrir tveimur árum fær tæplega 112.000 kr. í dag. Tekið skal fram að hér er um greiðslur að ræða sem eru umfram hefðbundnar vísitöluhækkanir.

"Það er ljóst að ef markaðurinn verður í núverandi stöðu um áramótin munu lífeyrisgreiðslur hjá okkur ekki hækka á næsta ári umfram vístitöluna," segir Þorgeir í samtali við Vísi.

Samkvæmt reglum um lífeyrissjóði er þeim heimilt að nota allt að 60% af ráðstöfunarfé sínu til ávöxtunnar í hlutabréfum, hvort sem er innlendum eða erlendum. Þorgeir segir að megnið af ráðstöfnarféinu sé bundið í ríkistryggðum skuldabréfum og lánum til sjóðsfélaga sem tryggð eru með veði í fasteignum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×