Viðskipti innlent

Krónubréf gefin út á ný

Þýski bankinn Rentenbank gaf út krónubréf fyrir fjóra milljarða kr. í gær og blés þar með glæðum í krónubréfaútgáfuna sem hefur verið með daufasta móti undanfarið.

Morgunkorn Glitnis fjallar um málið og þar segir að útgáfa Rentenbank sé með gjalddaga þann 17. júní 2009 og ber 13% vexti. Rentenbank hefur alls gefið út krónubréf fyrir 15 milljarða kr en þar af eru 11 milljarða kr enn útistandandi. Alls eru krónubréf að nafnvirði 371,5 milljarða kr útistandandi sem nemur um það bil 30% af landsframleiðslu síðasta árs.

Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður til útgáfu krónubréfa séu með besta móti í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans hafa ekki verið gefin út krónubréf síðan þann 15. október. Hinsvegar telur greining Glitnis að þrátt fyrir óvissu á mörkuðum og vaxandi áhættufælni sé enn von á einhverri útgáfu til viðbótar það sem eftir lifir ársins.

Reynslan gefi til kynna að flestar þær útgáfur sem falla á gjalddaga séu framlengdar með nýjum útgáfum og þá ætti hátt vaxtastig einnig að skapa hvata fyrir frekari útgáfu krónubréfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×