Viðskipti innlent

Sex íslensk félög á topp 100 lista Norðurlandanna

Sex íslensk félög voru í hópi 100 stærstu fyrirtækja Norðurlanda miðað við markaðsverðmæti um miðja vikuna. Raunar voru þrjú í hópi 50 stærstu, Kaupþing, sem var í 27. sæti, Landsbankinn, í 44. sæti og Glitnir sem sat í 49. sæti.

Önnur íslensk félög sem komust inn á lista 100 stærstu voru Exista (57. sæti), FL Group (90. sæti) og Straumur sem var 98. stærsta fyrirtækið. Meðal 200 stærstu félaganna eru 10 fyrirtæki sem eru skráð í Kauphöll Íslands.

Hálf fimm fréttir greiningar Kaupþings banka fjalla um stærstu fyrirtækin og þar segir að ef horft er til mannfjölda í hverju Norðurlandanna sem hlutfall af heildarmannfjölda ættu Íslendingar aðeins að eiga eitt fyrirtæki á listanum en ekki sex.

Íslendingar kæmu einnig vel út í höfðatölupælingum ef stærstu fyrirtækjum hvers lands væri skipt upp á milli íbúa þess lands þaðan sem þau koma. Stærstu fyrirtækin í löndunum fimm eru Nokia (Finnland), StatoilHydro (Noregur), A.P. Møller - Mærsk (Danmörk), Hennes & Mauritz (Svíþjóð) og Kaupþing (Ísland). Íslendingar fengju mest fyrir sinn snúð eða tæpar 2,4 milljónir króna á hvert mannsbarn með því að skipta Kaupþingi upp. Finnar, sem eru um 5,3 millljónir talsins, kæmu þar á eftir með 1,7 milljónir kr. á hvern íbúa með því að skipta Nokia sín á milli. Norðmenn fengju 1,3 milljónir kr. við uppskiptingu StatoilHydro, Danir um 650.000 kr. við uppstokkun A.P. Møller - Mærsk en Svíar fengju minnst eða um 356.000 kr. ef það sama yrði gert við H&M






Fleiri fréttir

Sjá meira


×