Viðskipti innlent

Hafa áhyggjur af samruna SPNOR og Byrs

Bæjarfulltrúar Vinstri grænna á Akureyri lýsa þungum áhyggjum af fyrirhugðum samruna Sparisjóðs Norðlendinga við Byr.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær fór fram umræða um þetta mál. Aðeins á eftir að fá samþykki Fjármálaeftirlitsins til að samruni Byrs og Sparisjóðs Norðlendinga geti gengið eftir en fulltrúar Vinstri grænna í bæjarstjórn telja að í sameiningunni felist talsverð áhætta fyrir Akureyri enda verði SPNOR ekki lengur sjálfstæð fjámálastofnun heldur útibú frá BYR.

Bæjarfulltrúar Vinstri grænna, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir, lögðu fram bókun sem fékkst ekki samþykkt en þar var lýst vonbrigðum yfir því að stjórn Sparisjóðs Norðlendinga hafi ekki skoðað samstarf við önnur fjármálafyrirtæki í héraði, svo sem KEA og Saga Capital til að styrkja sjálfstæði og stöðu sjóðsins í heimabyggð.

Skoðanir eru skiptar á Akureyri um samruna Byrs og Sparisjóðs Norðlendinga og virðast þverpólitískar því þótt tillagan um bókunina hafi verið felld þá ýmist sátu fulltrúar meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar hjá eða greiddu atkvæði gegn tillögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×