Viðskipti innlent

Slökkt á sjónvarpssendum árið 2010

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Loftnet munu heyra sögunni til eftir að hliðrænum útsendingum verður hætt og stafræna tæknin tekur alfarið við.
Loftnet munu heyra sögunni til eftir að hliðrænum útsendingum verður hætt og stafræna tæknin tekur alfarið við. MYND/Getty Images

Hliðrænni sjónvarpsdreifingu verður hætt hér á landi í lok árs 2010 og stafræn dreifikerfi taka þá alfarið við dreifingu sjónvarpsefnis. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjarskiptaáætlun Póst- og fjarskiptastofnunar 2005-2010.

„Þróunin er sú sama alls staðar í Evrópu," segir Hrafnkell Gíslason forstjóri stofnunarinnar. Hann segir tíðnina sem nú fari undir hliðrænar, eða analog, sjónvarpssendingar verðmætasta hluta tíðnisviðsins. Hún muni í framtíðinni verða notuð til að byggja upp farsímakerfi, stafræn sjónvarpskerfi og önnur kerfi til þjónustu við almenning.

Í dag var slökkt á sjónvarpssendum fyrir heilt bæjarfélag í Bretlandi. Það var breski bærinn Whitehaven í Cumbria sem er fyrsti staðurinn í Bretlandi sem færir sig alfarið yfir í stafrænt sjónvarp. Íbúar bæjarins þurfa nú breiðband, gervihnött eða myndlykil til að nálgast sjónvarpsefni. Um 25 þúsund heimili eru í bænum sem liggur miðja vegu milli Liverpool og Glasgow. Slökkt verður alfarið fyrir hliðrænar útsendingar sjónvarps í Bretlandi fyrir árið 2012.

Eitthvað hefur borið á fyrirspurnum frá fólki til stofnunarinnar um hvort gömlu sjónvarpstækin virki með nýrri tækni. Hrafnkell segir að fólk þurfi ekki að óttast. „Með því að fá sér stafrænan myndlykil geta menn haldið áfram að nota gömlu sjónvörpin."

Hrafnkell segir að flestir markaðsaðilar séu komnir vel á veg með að byggja upp kerfi, fyrir utan RUV sem er langstærsta einstaka sjónvarpsrásin sem aðallega er dreift með hliðrænum hætti. Stöð2 og Sýn er dreift áfram með hliðrænum hætti, en eru komin vel á veg með aðra valkosti eins og Digital Island og dreifikerfi Vodafone. Þá dreifir Síminn stafrænu sjónvarpi um ADSL kerfi sitt. Fleiri aðilar dreifa einnig sjónvarpi eins og Gagnaveitan í gegnum ljósleiðarakerfi sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×