Viðskipti innlent

Landsbankinn opnar í Hong Kong

Landsbankinn hefur fengið leyfi frá fjármálaeftirliti Hong Kong til þess að stofna starfsstöð þar í landi og var skrifstofan formlega opnuð á föstudaginn var.

Landsbankinn hefur nú þegar aflað sér dýrmætra tengsla á þessum markaði sem sjá má á því að rúmlega 500 gestir voru viðstaddir opnunina, aðallega stjórnendur úr viðskipta- og fjármálalífi

Hong Kong. Eftir opnunina starfar Landsbankinn í 17 löndum. Skrifstofan í Hong Kong verður miðstöð Landsbankans í Asíu en á því svæði stefnir bankinn að áframhaldandi vexti, meðal annars með því að sækja um leyfi til að opna starfstöðvar í Singapore og Shanghai.

Björn Ársæll Pétursson mun stýra starfsemi Landsbankans í Asíu. Björn Ársæll, sem hóf störf hjá Landsbankanum árið 2006, er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá háskóla í Japan.

„Það er heppilegt fyrir Landsbankann að skjóta rótum í Hong Kong fyrir uppbyggingu starfsemi í Suðaustur-Asíu. Markaðir hafa vaxið hratt á þessu svæði á undanförnum árum og hafa viðskiptavinir Landsbankans sýnt mikinn áhuga á að nýta sér þau tækifæri sem í því felst.," segir Sigurjón Þ, Árnason, bankastjóri í tilkynningu um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×