Viðskipti innlent

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs aukast um 40 prósent milli ára

MYND/E.Ól

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs hafa aukist um 16 milljarða króna eða 40 prósent á fyrstu tíu mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að heildarútlánin hafi numið nærri 56 milljörðum króna frá janúar til loka október á þessu ári en á sama tíma í fyrra námu lánin nærri 40 milljörðum.

Alls námu útlán sjóðsins 6,6 milljörðum króna í október síðastliðnum og var meðallán almennra útlána rúmlega 9,6 milljónir króna í mánuðinum.

Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að útlánin hafi aukist í takt við þá miklu veltuaukningu sem verið hafi á fasteignamarkaðnum á árinu. Samkvæmt upplýsingum fráFasteignamati ríkisins hafi velta með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu níu mánuðum ársins verið rúmlega 232 milljarðar, sem sé um 55 prósent aukning frá sama tímabili árið 2006. Þá jókst fjöldi kaupsamninga á svæðinu á sama tíma um 39 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×