Viðskipti innlent

Markaðurinn: Verðbólgan ekki hærri í nóvember í 17 ár

„Tíðindi dagsins eru þau að verðbólgan hefur ekki verið hærri í nóvember í sautján ár og því skyldi menn ekki undra þessi hækkun Seðlabankans í síðustu viku," sagði Pétur Aðalsteinsson sérfræðingur hjá VBS fjárfestingarbanka í viðtali í Markaðnum nú síðdegis.

Pétur spjallaði við Sindra Sindrason umsjónarmann þáttarins rétt fyrir fimm og voru þeir sammála um að það hefðu verið rólegheit á markaðnum í dag. Menn væru varkárir líkt og undanfarna daga og það mætti rekja til þeirrar óvissu sem ríkir á alþjóðlegum mörkuðum.

„Þar eru ekki öll kurl komin til grafar og það hafa heyrst raddir um að bönkum á Bandarískum mörkuðum verði skylt að gefa upp hver raunveruleg staða þeirra er í erlendum lánum. Sú óvissa er verðlögð hátt," sagði Pétur í þættinum.

Pétur sagði einnig að þessi háa verðbólga nú í nóvember sé sérstök því yfirleitt sé verðbólgan jafnan lág rétt áður en jólaverslunin skellur á.

 „Þetta er því öðruvísi en áður og vísbending um að það sé spenna. Þetta eykur einnig líkurnar á að það verði önnur vaxtahækkun fyrir áramót eða strax í byrjun næsta árs," sagði Pétur sem vildi rekja þessa óvissu til þess að menn væru að halda að sér höndum.

Markaðurinn í umsjón Sindra Sindrasonar er á dagskrá alla virka daga hér á Vísi klukkan 16:45






Fleiri fréttir

Sjá meira


×