Viðskipti innlent

Greiningadeild Kaupþings spáir 4,8% verðbólgu

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður Greiningadeildar Kaupþings.
Ásgeir Jónsson, forstöðumaður Greiningadeildar Kaupþings.

Greiningardeild Kaupþings hefur endurskoðað spá sína til hækkunar og spáir nú 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í stað 0,2%, eftir því sem fram kemur í Hálf-fimm fréttum. Þar segir að endurskoðun frá fyrri spá megi rekja til hækkunar eldsneytisverðs í lok mánaðar.

Gangi spá Greiningardeildar eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 4,8% samanborið við 4,5% í október. Hækkunin í mánuðinum helgast af hækkandi fasteigna- og eldsneytisverði. Hins vegar hafa verðlækkanir á leikfangamarkaði áhrif til lækkunar ásamt því sem gert er ráð fyrir lítilsháttar verðlækkun á fatnaði og skóm.

 

 

Eldsneyti hækkar enn„Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur farið hækkandi á síðustu vikum og stendur nú í 95 dölum á tunnu. Hækkandi heimsmarkaðsverð hefur skilað sér í hærra eldsneytisverði hér heima sem hefur hækkað um allt að 4,7% frá byrjun október. Í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur úti í heimi má gera ráð fyrir frekari hækkun eldsneytis hér heima á næstu mánuðum. Greiningardeild gerir ráð fyrir að hækkandi eldsneytisverð muni skila sér í 0,08% hækkun VNV í mælingum Hagstofunnar í nóvember," segir í Hálf-fimm fréttum. Verðbólgan hjaðnar hratt á næsta ári

Greiningadeild Kaupþings gerir ráð fyrir að verðbólgan hjaðni hratt er líða tekur á næsta ár samhliða því sem efnahagslífið gangi í gegnum niðursveiflu og fasteignamarkaður kólnar. Greiningardeildin gerir ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið á árinu 2009 en telur að það gæti náðst fyrr, meðal annars ef kólnun á húsnæðismarkaði verði meiri en Greiningardeild geri ráð fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×