Viðskipti innlent

Spá 0,4% hækkun á neysluverðsvísitölu

Greining Glitnis reiknar með að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% milli október og nóvember en Hagstofa Íslands birtir mælingu sína á mánudagsmorgun.

Í verðbólguspá sem birt var 2. nóvember gerði greiningin ráð fyrir 0,4% hækkun í nóvember og telur ekki ástæðu til að endurskoða þá spá. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga hækka úr 4,5% í 4,9%. Gert er ráð fyrir að ársverðbólga muni hækka lítillega milli mánaða það sem eftir er árs og vera ríflega 5% í desember.

Hækkun húsnæðisverðs mun leiða hækkun vísitölunnar að þessu sinni. Húsnæðisverð hefur hækkað töluvert það sem af er ári og hefur verið stór þáttur í verðbólguþróuninni. Greining gerir ráð fyrir að húsnæðisverð muni hækka hægar á næstu mánuðum en það hefur gert á þetta ár.

Vaxtahækkun á húsnæðislánum muni hægja á verðhækkun húsnæðis. Áhrif þess verða þó takmörkuð þar til allir lánveitendur hafa hækkað vexti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×