Viðskipti innlent

Ákvörðun um afskráningu Vinnslustöðvarinnar úr kauphöllinni

Á hluthafafundi í Vinnslustöðinni hf. verður tekin afstaða til tillögu stjórnar félagsins um að afskrá félagið úr Kauphöllinni. Þessi tillaga stjórnar kemur í kjölfarið á þeim hræringum sem verið hafa í félaginu á árinu.

Eyjafrettir.is fjalla um málið og þar segir að eins og kunn­ugt er, gerðu tveir aðilar tilboð í félagið í sumar. Í vor gerði hópur hluthafa í Vinnslustöðinni (VSV) með sér hluthafasamkomulag um stjórnun og rekstur VSV. Þessi hópur stofnaði hlutafélagið Eyja­menn ehf. sem síðar gerði yfirtökutilboð í VSV.

Í byrjun sumars gerðu bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir, oft kenndir við Brim ehf., mun hærra samkeppnistilboð. Ekki reyndist áhugi hjá öðrum hluthöfum að selja sína hluti þannig að ekkert varð af þeirri yfirtöku.

Í framhaldi af þessu ákvað meiri­hluti stjórnar félagsins að óska eftir afskráningu úr Kauphöllinni enda höfðu Eyjamenn ehf. óskað eftir því en þeir réðu yfir liðlega 50% hlutafjár í VSV. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í samtali við Eyjafrettir, að þetta mál þurfi að hafa sinn framgangsmáta.

Guðmundur Kristjánsson sagði í sumar, þegar fyrir lá að félagið yrði væntanlega afskráð úr Kauphöllinni, að sú ákvörðun myndi rýra hlut þeirra sem ættu félagið og nefndi t.d. Lífeyrissjóð Vestmannaeyja. Sigurgeir Brynjar var spurður hvort þetta væri þá ekki óráð, ef rétt væri og þetta var svar hans: „Ef það eykur verðgildi fyrirtækja að vera skráð í Kauphöllinni, af hverju skráir Guðmundur Kristjáns­son þá ekki sín fyrirtæki þar?"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×