Viðskipti innlent

Fjármálaráðherra segir stýrivaxtahækkun loksins að virka

Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að svo virðist sem stýrivaxtahækkun Seðlabankans hafi loksins virkað eins og henni sé ætlað. Slíkt sjáist þegar í minnkandi þennslu á bæði fasteigna- og hlutabréfamarkaðinum.



„Menn hafa mikið rætt um að vaxtahækkun Seðlabankans hafi komið þeim á óvart," segir Árni Mathiesen í samtali við Vísi. „Það þýðir þá að fyrri vaxtahækkanir bankans hafi verið fyrirsjáanlegar og kannski ekki virkað sem skyldi af þeim sökum."

Mikið hefur verið rætt um ræðu þá sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri hélt á fundi Viðskiptaráðs í vikunni. Þar vék hann m.a. að fjármálum hins opinbera. Árni Mathiesen segir að Davíð hafi ekki gagnrýnt stöðu ríkisfjármála nema síður væri.

„Hann nefndi réttilega að mikið hefur verið greitt upp af skuldum ríkissjóðs," segir Árni. "Hann ræddi hins vegar um mikla þenslu í fjármálum hins opinbera. Það eru einkum sveitarfélögin sem standa að þeirri þenslu en gjöld þeirra jukust um 12 milljarða króna í fyrra.“

Árni segir að þetta sé upphæð sem telji þótt hún sé kannski ekki há miðað við t.d. 100 milljarða króna uppbyggingu í virkjanageiranum. „Við ráðum hinsvegar ekki því hvernig sveitarfélögin ráðstafa fé sínu," segir Árni. „Og það má einnig geta þess að þarna var um kosningaár að ræða og reynslan sínir að boginn er oft hátt spenntur í fjármálum sveitarfélaganna þegar svo er."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×