Viðskipti innlent

Iceland Express fjölgar sumaráfangastöðum

Iceland Express hyggst fjölga sumaráfangastöðum sínum um tvo og fljúga til 15 áfangastaða í Evrópu næsta sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Flogið verður til Varsjár næsta sumar auk þess sem Barcelona bætist í hóp sumaráfangastaða en flugfélagið hóf að fljúga til Barcelona nú í haust. Félagið hyggst enn fremur halda áfram flugi frá Akureyri og Egilsstöðum til Kaupmannahafnar.

„Stefna Iceland Express er að auka stöðugt samkeppni á flugmarkaði og gera almenningi sífellt auðveldara að komast til útlanda. Viðtökurnar hafa sýnt að við erum á réttri leið, Iceland Express hefur aldrei flutt jafn marga farþega og í ár og sumaráætlun okkar 2008 ber þess merki að við ætlum að gera enn betur á næsta ári," er haft eftir Matthíasi Imsland, forstjóra Iceland Express, í tilkynningu frá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×