Viðskipti innlent

Alcoa og Eimskip semja um flutninga

Alcoa Fjarðaál og Eimskip hafa undirritað umfangsmikinn samning um að Eimskip sjái um flutning á rúmlega 220.000 tonnum, þar af innflutning á 180.000 tonnum og útflutning á 40.000 tonnum á ári, fyrir Alcoa Fjarðaál.

Um er að ræða alla flutninga á rafskautum fyrir álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Jafnframt hafa félögin náð samkomulagi um 40.000 tonna álflutninga til Bandaríkjanna og er því um að ræða flutninga upp á 260.000 tonn á ári.

Í tilkynningu um málið segir að samningurinn komi í beinu framhaldi af samningi sem félögin gerðu með sér fyrr á árinu og var kynntur í febrúar síðastliðnum. Þá var samið um að Eimskip annist alla skipaafgreiðslu fyrir Fjarðaál í Reyðarfirði. Í þeim samningi felst uppskipun á 690.000 tonnum af súráli og öllum aðföngum til álframleiðslu, svo og á allri lestun áls sem nemur 346.000 tonnum á ári. Í heild er því umfang samningsins 1.300.000 tonn á ári, sem fara munu í gegnum Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði.

Samningar fyrirtækjanna tveggja á sviði flutningastarfsemi og þjónustu leiðir af sér eitthvert umfangsmesta samstarf á sviði flutninga sem ráðist hefur verið í á þessu sviði hér á landi.

Þegar starfsemi álversins kemst í fullan gang verður Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði önnur mesta vöruflutningahöfn landsins. Til samanburðar má geta þess að um tvær milljónir tonna fara árlega um Reykjavíkurhöfn og 900 þúsund tonn um Grundartangahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×