Viðskipti innlent

Spá 10% gengislækkun á næsta ári

Greining Glitnis gerir ráð fyrir að gengi krónunni lækki um 10% á miðju næsta ári. Gengið mun hinsvegar haldast sterkt á næstu mánuðum vegna stýrivaxtahækkunnar Seðlabankans.

"Ný stýrivaxtaspá breytir forsendum um gengisþróun næsta kastið, enda er vaxtamunur við útlönd helsti gagnráður gengisþróunar íslensku krónunnar um þessar mundir," segir m.a. í Morgunkorni greiningar Glitnis. "Þannig teljum við nú ljóst að krónan muni haldast sterk langt fram eftir næsta ári. Aukinn vaxtamunur og óvissa í þá átt að vextir kunni að hækka enn frekar fyrir árslok styður einnig við gengi krónu til skemmri tíma.

Á móti vegur að nú eru heldur meiri blikur á lofti en áður varðandi erlenda fjármálamarkaði. Spáum við nú að gengisvísitalan muni standa í 111 í árslok, evran í 83 kr. og bandaríkjadollar í 58 kr."

Fram kemur að spá greiningar Glitnis nú geri ráð fyrir að krónan taki að veikjast undir miðbik næsta árs og að gengisvísitalan verði nærri 122 í lok ársins 2008, evran í 91 kr. og dollarinn í 64 kr.

"Við gerum svo ráð fyrir hægfara styrkingu krónu á árinu 2009. Þar munu togast á lækkandi vextir, þótt við teljum að þeir verði enn fremur háir, og svo hins vegar að næsta hagvaxtarskeið verður skammt undan," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×