Viðskipti innlent

Hagnaður Milestone fjórðungi meiri en allt árið í fyrra

Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone.
Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone. MYND/GVA

Milestone hagnaðist um 27,2 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt uppgjöri sem birt er í dag. Það er rúmlega fjórðungi meiri hagnaður en allt árið í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að fjárfestingatekjur hafi numið 33,4 milljörðum króna og rekstrartekjur námu 19 milljörðum króna. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 288 milljónum króna fyrir skatta.

Í tilkynningunni kemur fram að Milestone hafi lokið við 70 milljarða króna yfirtöku á sænska félaginu Invik & Co. AB, en fyrirtækið varð hluti af samstæðu Milestone frá 30. júní 2007. Invik á tæplega tíu prósenta hlut í sænska fjármálafyrirtækinu Carnegie.

Heildareignir Milestone í lok september námu 380 milljörðum króna, sem er ríflega tvöföldun frá árslokum 2006. Er vöxturinn drifinn áfram af innri og ytri vexti með skýrri áherslu á tryggingastarfsemi, bankastarfsemi og eignastýringu. Segir í tilkynningu Milestone að áætlanir geri ráð fyrir áframhaldandi vexti í skulda- og eignastýringu á Norðurlöndum í gegnum dótturfélög Milestone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×