Viðskipti innlent

40 milljóna króna hagnaður hjá 365 á þriðja ársfjórðungi

Ari Edwald er ánægður með viðsnúning í rekstri 365.
Ari Edwald er ánægður með viðsnúning í rekstri 365. MYND/Teitur

Fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækið 365, sem meðal annar rekur Vísi, skilaði 40 milljóna króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi samkvæmt uppgjöri sem birt er í Kauphöll Íslands.

Þar kemur enn fremur fram að tap fyrirtækisins fyrstu níu mánuði ársins hafi verið 40 milljónir króna. Sala á fyrstu níu mánuðum ársins nam rúmum 8,3 milljörðum króna og jókst um rúmar fjögur hundruð milljónir eða fimm prósent á milli ára. Eigið fé félagsins var rúmir 6,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall var 40 prósent.

Þegar aðeins er horft til þriðja ársfjórðungs jókst sala félagsins um 11 prósent frá sama tímabili í fyrra og nam hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta 345 milljónum króna. Tapið á sama tímabili í fyrra var nærri 160 milljónir.

Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra 365, að rekstrarárangur á þriðja ársfjórðungi sé góður bæði er varðar tekjuvöxt og afkomu en það staðfesti viðsnúning á rekstri félagsins. Hagnaður af fjölmiðlahluta félagsins fyrir skatta og afskriftir hafi verið 275 milljónir og ársfjórðungurinn sá besti í sögu fjölmiðlarekstrarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×