Viðskipti innlent

Húsnæðislán bankanna dragast saman

MYND/Valgarður

Töluvert hefur dregið úr húsnæðislánum viðskiptabankanna á síðustu mánuðum og rekur greiningardeild Glitnis það til hækkun vaxta á húsnæðislánum um mánaðamótin júlí og ágúst.

Í júlí lánuðu bankarnir ríflega átta milljarða króna til húsnæðiskaupa, 6,8 milljarða í ágúst og aðeins 4,5 milljarða í september síðastliðnum. Fjöldi lána hefur enn fremur dregist saman um nærri þriðjung milli júlí og september.

Í Morgunkorni Glitnis segir enn fremur að það hversu háir vextir verði að vera til að slá á markaðinn ráðist af efnahagsumhverfinu hverju sinni. Margt hafi að undnförnu örvað verðhækkun á húsnæðismarkaði, til að mynda lítið atvinnuleysi og örar launahækkanir auk fólksfjölgunar og góðs aðgengis að lánsfjármagni. „Það er því ljóst að um þessar mundir þarf hærra vaxtastig en oft áður til að hægja á húsnæðismarkaði," segir enn fremur í Morgunkorninu.

Greiningardeild Glitnis bendir enn fremur á að einnig hafi hægt á verðhækkun á dýrari húsnæðiseignum sem bankarnir hafi aðallega lánað til frá því að vextir voru hækkaðir. „Það má því telja líklegt að vaxtastig upp undir 6% auk verðtryggingar nægi til að hægja á markaðinum. Við teljum að þetta vaxtastig nægi til að hægja á markaðinum en ekkert umfram það," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×