Viðskipti innlent

Spennandi uppgjör framundan

Í næstu viku eru nokkur spennandi uppgjör hjá félögum í kauphöllinni. Félög sem birta afkomutölur sínar þá eru Glitnir, Össur, Teymi, Landsbankinn, TM, 365 og FL Group. Greiningardeildir bankanna eru nokkuð samstíga í spáum sínum um afkomu þessara félaga.

Allir gera ráð fyrir miklu tapi hjá FL Group eða á bilinu 26 til tæplega 30 milljarða kr. á þriðja ársfjórðung. Það sem einkum spilar hér inn í er lækkun á skráðu eignasafni félagsins í American Airlines annars vegar og Commerzbank hinsvegar.

Það vekur athygli að þrátt fyrir lækkunina hefur FL Group aukið hlut sinn í Commerzbank úr 3,4% og í 4,25% á ársfjórðungnum og í American Airlines úr 8,25% í 9,14%. Um þetta segir greining Glitnis í afkomuspá sinni: "Segja má að fjárfestingarstíll stjórnenda hafi kristallast í ofangreindum aðgerðum. Svipaðar aðferðir notuðu þeir t.d. í niðursveiflunni á íslenska hlutabréfamarkaðinum í fyrra."

Hvað Landsbankann varðar er gert ráð fyrir hagnaði í kringum 8 milljarða á fjórðungnum. Tölur um afkomu Teymis eru frá rúmlega 900 milljón kr. tapi og upp í 87 milljón kr. hagnað. Af öðrum félögum má nefna að allar greiningardeildirnar eru sammála um að 365 verði í kringum núllið eða frá 5 milljón kr. tapi upp í 2 milljón kr. hagnað. Og Glitni er spáð hagnaði á bilinu 6 til rúmlega 8 milljarða kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×