Viðskipti innlent

Kemur til greina að greiða laun starfsmanna í evrum

Stjórn Kaupþings ætlar að taka upp evru og stefnir að því að það verði gert um áramót, ef tilskilin leyfi fást frá Seðlabankanum fyrir þann tíma. Til greina kemur að starfsmenn geti þá tekið laun sín að hluta eða öllu leyti í evrum.

Í tilkynningu frá bankanum í morgun segir að svonefndum starfrækslugjaldmiðli bankans verði breytt í evrur en starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem meirihluti viðskipta fyrirtækisins fer fram í, eða bæði tekjur og gjöld. Stjórn bankans ætlar einnig að leggja til við hluthafa að hlutafé bankans verði líka breytt í evrur.

 

Kaupþing er lang stærsta fyrirtæki á Íslandi og þar með í Kauphöllinni. Starfsmenn eru á tólfta hundrað hér á landi og til greina kemur að þeir geti tekið laun sín að hluta eða alveg í evrum eftir breytinguna.

Þegar Straumur Burðarás tók upp evruna í vor var starfsmönnum boðið að taka laun sín að hluta eða alveg í Evrum. Þeir eru hátt í 120 og taka 44 þeirar launin í evrum. Fjölgun er jöfn og þétt í þeim hópi um hver mánaðamót.

Eftir því sem fréttastofan kemst næst getur þessi tilhögun verið til mikils ávinnings fyrir starfsfólkið ef það tekur lán í evrum til húsnæðiskaupa til dæmis. Það nýtur þá lægri vaxta, sleppur við verðtryggingu og verður óháðara gengissveiflum en ella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×