Viðskipti innlent

Rúmlega 14 milljarða króna hagnaður hjá Straumi

MYND/Anton Brink

Hagnaður Straums Burðaráss fjárfestingarbanka var rúmlega 163 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins, jafnvirði um 14,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir enn fremur að hreinar vaxtatekjur hafi aukist um 28 prósent og hreinar þóknunartekjur um 60 prósent frá sama tímabili í fyrra. Þá nema eignir Straums nærri sjö milljörðum evra eða hátt í 600 milljörðum króna í lok september og hafa eignir félagsins aukist um nærri sextíu prósent frá áramótum.

Haft er eftir William Fall, forstjóra Straums, að vaxta- og þóknunartekjur séu drifkrafturinn í starfsemi bankans og þær hafi haldið áfram að aukast. „Að auki er efnahagur bankans sterkur og við höfum dregið nokkuð úr áhættuskuldbindingum í hlutabréfum. Óhagstæðar markaðsaðstæður upp á síðkastið hafa haft sín áhrif á afkomuna en við erum fullviss um að ná langtímamarkmiðum okkar og auka verðmæti í þágu hluthafa okkar,l segir Fall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×