Viðskipti innlent

MP Pension opnar í Litháen

MP Pension Fund Baltic opnaði við hátíðlega viðhöfn í Vilníus þann 11. október síðastliðinn. Ramūnas Stankevičius, framkvæmdastjóri félagsins, kynnti þar meginmarkmið og verkefni félagsins en markmið þess er að örva frjálsan lífeyrissparnað í Litháen og upplýsa litháískt samfélag um ágæti lífeyrissjóða.

Heiðursgestir við opnunina voru Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra Íslands og Jón Sigurðsson, fyrrum bankastjóri Norræna Fjárfestingarbankans og fyrrum iðnaðarráðherra. Í erindum sínum lögðu þeir báðir áherslu á mikilvægi lífeyrissjóða í hagkerfi Íslands og hversu áríðandi væri að huga vel að framtíðaruppbyggingu trausts lífeyrissjóðakerfis í Litháen.

Litháíski lífeyrissjóðamarkaðurinn er tiltölulega skammt á veg kominn í þróun lífeyrismála, einkum hvað varðar „þriðju stoðar" lífeyrissjóði. Þriðju stoðar lífeyrissjóðir eru einkareknir lífeyrissjóðir sem gefa launafólki færi á að greiða frjáls viðbótariðgjöld.

Í lok júní 2007 voru einungis 6 slíkir lífeyrissjóðir í landinu, með um 20 þúsund meðlimi. Á sama tíma voru þar 21 „annarrar stoðar" lífeyrissjóðir, með yfir 680 þúsund meðlimi. Annarrar stoðar sjóðir einkennast af því að launafólk getur fært í þá ákveðinn hluta af lögbundnum iðgjöldum sínum.

Stjórn félagsins er skipuð Íslendingunum Sigurbirni Einarssyni, sem er stjórnarformaður, Ágústi Sindra Karlssyni og Jóni Sigurðssyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×