Viðskipti innlent

Hagvöxtur útflutnings í stað einkaneyslu

Ólafur Darri Andrason og samstarfsfólk hans spá auknu jafnvægi í íslensku efnahagslífi á næstu tveimur árum.
Ólafur Darri Andrason og samstarfsfólk hans spá auknu jafnvægi í íslensku efnahagslífi á næstu tveimur árum. MYND/Billi

Hagdeild Alþýðusambands Íslandcs spáir því að það dragi úr ójafnvæginu í hagkerfinu á næstu tveimur árum og að í stað hagvaxtar sem byggist á fjárfestingum og einkaneyslu komi hagvöxtur sem byggist á útflutningi. Þetta kemur fram í haustskýrslu hagdeildarinnar þar sem birt er hagspá fyrir árin 2008 og 2009.

Bent er á að hagkerfið sé enn að leita jafnvægis eftir ólgusjó síðustu ára en áfram verði mikið undirliggjandi ójafnvægi. Býst ASÍ við að verðbógla verði áfram mikil út árið og að hún muni aukast á ný á fyrri hluta næsta árs þegar áhrif vegna lækkunar á virðisaukaskatti á matvælum fjara út. Þá má að mati ASÍ einnig búast við verðbólguskoti í kjölfar þess að krónan veikist á seinni hluta ársins 2008. Hún hjaðnar síðan hratt og líkur eru á að verðbólgumarkmiðið náist á miðju ári 2009.

ASÍ reiknar enn fremur með að hagvöxtur verði minni en undanfarin ár en samt viðunandi. Fjárfestingar dragast verulega saman í ár og 2008 en aukast á ný árið 2009 samfara uppbyggingu álvers í Helguvík. Þá hægi á vexti einkaneyslunnar og hún dregst lítillega saman árið 2008 en eykst á ný árið 2009.

Þá segir hagdeild ASÍ að blikur séu á lofti á vinnumarkaði. Niðurskurður á aflaheimildum, kólnun á byggingarmarkaði og lok stóriðjuframkvæmda á Austurlandi dragi úr spennu í hagkerfinu og við það aukist atvinnuleysi.

Haustskýrslu hagdeildarinnar má nálgast hér að neðan í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×