Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á kaffi mjög hátt

Heimsmarkaðsverð á kaffibaunum náði tíu ára hámarki fyrir síðustu helgi vegna ótta um frekari uppskerubrest í Brasilíu, stærsta framleiðanda kaffibauna. Framleiðslan í Brasilíu dróst saman um 23% á síðasta uppskerutímabili vegna þurrka og nam 32,6 milljónum poka.

Greint er frá þessu í Hálf fimm fréttum Kaupþings banka. Þarsegir að heimsframleiðslan var um 114 milljónir poka, sex prósentustigum minni en árið áður. Ekki bætir úr skák að óvíst er um gæði uppskerunnar í Víetnam, öðrum stærsta framleiðandanum.

Eitt tonn af kaffibaunum (Robusta), sem koma til afhendingar í nóvember, fór hæst í 2.234 Bandaríkjadali fyrir helgi en verðið hefur verið að síga niður á síðustu dögum vegna væntinga um að taki að rigna í helstu uppskerusvæðum í Brasilíu.

Nestlé og Procter & Gamble, tveir af stærstu kaffiframleiðendum heims, hafa brugðist við minnkandi framboði kaffibauna með verðhækkunum.

Financial Times greinir frá því að eftirspurn eftir kaffi hafi stóraukist meðal ungs fólks í gömlu iðnríkjunum. Á undanförnum fimm árum hefur eftirspurn eftir kaffi aukist um 8% í Bandaríkjunum og næstum því 6% í Evrópu.

Í Bretlandi jókst neyslan um 35% á milli áranna 2002-2006 en kaffineysla þar hefur verið tiltölulega lág í sögulegu ljósi. Þessa aukningu vilja menn þakka kaffihúsakeðjum á borð við Starbucks sem eru að vaxa hratt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×