Viðskipti innlent

Straumur fær evruskráningu fyrir áramót

"Þetta er á góðu róli og ég reikna með að evruskráning Straums Burðarás í kauphöllinni verði að veruleika fyrir áramótin," segir Einar Baldvin Stefánsson forstöðumaður lögfræðisviðs Verðbréfaskráningar í samtali við Vísi. "Við og Seðlabankinn höfum verið að kasta á milli okkar pappírum og vinnugögnum og þessi vinna gengur vel."

Einar Baldvin segir að hann sjái engin ljón í veginum nú fyrir evruskráningu Straums Burðarás og málið sé á fullu skriði. "Öll mál í kringum þetta hafa verið leyst eða munu verða leyst á næstunni."

Sem kunnugt er af fréttum stóð til að evruskráningin yrði að veruleika í síðasta mánuði en þá barst óvænt bréf frá Seðlabankanum þar sem stóð m.a. að þar á bæ kæmu menn af fjöllum um að þetta stæði til. Frestaðist málið af þeim sökum.

"Þetta kom okkur verulega á óvart," segir Einar Baldvin. "Í samráðsnefnd Verðbréfaskráningar, Seðlabankans og kauphallarinnar var fundað um málið í maí síðastliðnum. Formaður nefndarinnar kemur frá Seðlabankanum þannig að mönnum þar á bæ átti að vera fullkunnugt um málið."

Einar Baldvin segir það vera klárt að einn maður í Seðlabankanum hafi frestað málinu og á hann þar við Davíð Oddsson seðlabankastjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×