Viðskipti innlent

Össur hf. skoðar skráningu í Kaupmannahöfn

Össur hf. skoðar nú hvort skrá beri félagið í kauphöllina í Kaupmannahöfn. „Þetta hefur verið til skoðunar um tíma hjá okkur en ég vil taka fram að engar ákvarðanir hafa enn verið teknar,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf.

„Það eru kostir og gallar við að skrá félagið í Kaupmannahöfn en þess ber að geta að erlendir aðilar eiga nú um helminginn af Össuri hf., " segir Jón Sigurðsson í samtali við Vísi. „Með skráningu í Kaupmannahöfn værum við að taka mið af óskum þeirra.“

Fram kemur í máli Jóns að nýlega fékk stjórn Össurar leyfi hluthafafundar til að auka hlutafé í félaginu um 200 milljónir hluta að hámarki eða um ríflega 20 milljarða króna. Jón segir að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvenær þessir hlutir verða settir á markað. Hann bendir á að um hámarksheimild sé að ræða en ekki víst að stjórn félagsins telji þörf á að nýta hana alla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×