Viðskipti innlent

SPRON og BYR minnka verulega við sig í Icebank

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, er einn þeirra sem kaupa hlut í bankanum.
Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, er einn þeirra sem kaupa hlut í bankanum. MYND/Rósa

Tveir stærstu hluthafarnir í Icebank, BYR og SPRON, hafa ákveðið að minnka eignarhlut sinn í bankanum niður í fjögur prósent hvor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icebank.

BYR átti 36 prósent í Icebank og SPRON nærri 25 prósent. Kaupendur hlutanna eru Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja ásamt stjórnendum Icebank og fjárfestum.

Auk þess ákváðu þrír minni sparisjóðir að selja allan eignarhlut sinn í bankanum en öll viðskiptin eru með fyrirvara um samþykki erlendra lánadrottna bankans. Sparisjóðirnir, sem hingað til hafa verið einu eigendur bankans, munu eftir viðskiptin áfram eiga meirihluta, eða rúmlega 57 prósent hlutafjár.

Þá segir í tilkynningunni að með afnámi á öllum takmörkunum á eignarhaldi í samþykktum bankans og aðkomu nýrra hluthafa er stigið mikilvægt skref í framþróun hans og öflugri sókn innan lands og utan.

EFtir viðskiptin eru stærstu hluthafar úr hópi sparisjóða Sparisjóðurinn í Keflavík (15,2%), Sparisjóður Mýrasýslu (11,7%), Sparisjóður Vestmannaeyja (5,3%), Sparisjóður Bolungarvíkur (4,6%), BYR (4,0%) og SPRON (4,0%). Boðað verður til hluthafafundar á næstunni þar sem nýtt bankaráð verður kjörið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×