Viðskipti innlent

Sigurður nýr forstjóri TM

Sigurður Viðarsson tekur við starfi forstjóra Tryggingarmiðstöðvarinnar af Óskari Magnússyni í kjölfar eigendaskipta hjá félaginu. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu hefur Sigurður störf nú þegar en samkomulag er á milli stjórnar TM og Óskars Magnússonar, fráfarandi forstjóra, að hann láti formlega af störfum þann 15. nóvember.

Óskar hefur verið forstjóri fyrirtækisins frá árinu 2004 en búist hafði verið að hann myndi láta í kjölfar kaupa FL Group á stærstum hluta félagsins í síðasta mánuði.

Sigurður Viðarsson er viðskiptafræðingur fá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Kaupþingi líftryggingum frá árinu 1997. Hann var síðast forstöðumaður fjármála- og vátryggingarsviðs og staðgengill forstjóra.

Haft er eftir Óskari Magnúsyni í tilkynningu frá TM að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt við jafn miklar breytingar og nú hafa orðið á eignarhaldi TM að forstjóri eins og hann láti af störfum. Hann óski nýjum eigendum til hamingju með kaupin á félaginu og nýjum forstjóra velgengni í starfi.

TM er eitt af þremur stærstu tryggingarfélögum á Íslandi með um fjórðungs markaðshlutdeild. Stærstur hluti starfsemi TM er á Íslandi en þar að auki á það norska tryggingarfélagið Nemi Forsikring ASA. Hjá félaginu stafa rúmlega 130 manns á Íslandi og yfir 50 manns í Noregi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×