Viðskipti innlent

Neitar að tjá sig um hugsanleg kaup á Atlanta

Samsett mynd.
Samsett mynd.

Framkvæmdastjóri Iceland Express vill ekkert segja um hvort Air Atlanta sé á innkaupalista fyrirtækisins eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.

Morgunblaðið segir frá því í dag að orðrómur sé á kreiki í viðskiptalífinu um að hugsanlegur kaupandi sé kominn að flugfélaginu Air Atlanta sem Eimskipafélagið hefur haft í sölumeðferð um nokkurt skeið.

Kaupandinn muni vera Iceland Express, eða Fons eignarhaldsfélag þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Í fréttinni segir að Iceland Express hafi áhuga á að hefja flug vestur um haf en að fjöldi flugleyfa til Bandaríkjanna sé takmarkaður og slík leyfi liggi ekki beinlínis á lausu. Air Atlanta hafi hins vegar leyfi til þess að fljúga vestur um haf og það sé væntanlega það sem aðstandendur Iceland Express ágirnist.

Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, sagði í samtali við Markaðinn í morgun að hann vildi ekkert tjá sig um hvort félagið ætlaði sér að eignast Air Atlanta eða ekki. Hann sagði þó að Iceland Express ætti flugfélagið Astreus sem hafi öll tilskilin leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna og því þurfi þeir ekki á Air Atlanta vegna þeirra mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×