Viðskipti innlent

Vöruskiptahallinn 10 milljarðar í september

Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur um vöruskipti í september. Samkvæmt þeim nam vöruútflutningur í síðasta mánuði 18,1 mlljörðum kr. en vörur voru hins vegar fluttar inn fyrir 28,1 milljarða kr. og því var 10 milljarða kr. halli á vöruskiptum í september. Er það 2 milljörðum kr. minni halli en í ágúst.

Morgunkorn Glitnis fjallar um málið og segir m.a. að miðað við ofangreindar tölur var vöruskiptahalli á 3. ársfjórðungi 36 milljarðar kr. sem er tæpum 5% minni halli en á sama tíma í fyrra, reiknað á föstu gengi. Mjög hefur því hægt á þeirri þróun í átt til betra jafnvægis á vöruskiptum sem sjá mátti á fyrstu mánuðum ársins. Það sem af er ári nemur vöruskiptahalli 76,5 milljörðum kr., en var 112,6 milljarðar kr. á sama tímabili í fyrra.

"Þótt hægar dragi úr vöruskiptahalla en við gerðum ráð fyrir í upphafi árs teljum við líklegt að hann muni minnka allhratt á næstu misserum. Áætlað er að Kárahnjúkavirkjun taki að fullu til starfa undir lok árs. Mun álverið á Reyðarfirði ná fullri framleiðslugetu í kjölfarið og álútflutningur aukast verulega," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×