Viðskipti innlent

Seðlabanki Tékklands samþykkir kaup Straums á tékkneskum banka

MYND/Anton Brink

Seðlabanki Tékklands hefur samþykkt kaup Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka á helmingshlut í tékkneska fjárfestingabankanum Wood & Company. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straumi til Kauphallar Íslands. Öll skilyrði kaupanna eru nú uppfyllt og er stefnt að því að ljúka þeim á næstu dögum.

Straumur keypti hlutinn í júní með kauprétt að eftirstandandi hlutum eigi síðar en árið 2011. Hafði tékkneska fjármálaráðuneytið áður samþykkt kaupin.

Meðal viðskiptavina Wood & Company eru fjárfestar og fyrirtæki í Mið- og Austur-Evrópu. Bankinn hefur um þrjátíu prósenta markaðshlutdeild í kauphöllinni í Prag. Þá hefur bankinn einnig aðild að kauphöllunum í Búdapest, Varsjá, Búkarest og Ljúblíana, sem og kauphöllum Austurríkis og Þýskalands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×