Viðskipti erlent

Enn þröngt um lausafé á fjármálamörkuðum

Þrátt fyrir að losnað hafi um lausafé á ýmsum helstu fjármálamörkuðum heims er aðgengi að lausafé mun takmarkaðra en var fyrir óróann sem hófst í júlílok, og vextir á skammtímalánum enn háir. Álag á helstu millibankamörkuðum, miðað við stýrivexti, er þannig enn mun hærra en var í júlílok og raunar er álag á 3 mánaða innlánsvexti í Bandaríkjum og á evrusvæði með því hæsta sem verið hefur frá því sviptingarnar hófust.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis og þar segir að tilkynningar nokkurra af stærstu bönkum heims um neikvæð áhrif af húsnæðislánakrísunni í Bandaríkjunum og lausafjárþrengingum virðast fremur hafa haft jákvæð áhrif en neikvæð á hlutabréfamarkað. Lánsfjármarkaðir hafa tekið nokkuð annan pól í hæðina og sér í lagi virðist vaxtaálag í Bandaríkjunum hafa hækkað nokkuð það sem af er viku. Áhrif lánavandræðanna í Bandaríkjunum á húsnæðismarkað þar í landi eru farin að koma fram í auknum mæli, en þó er talið að langur tími muni líða þar til heildaráhrif á bandarískt hagkerfi verða ljós.

 

Líklegt er að talsvert langan tíma muni taka að vinda að fullu ofan af þeirri lausafjárþurrð sem skapaðist í kjölfar óróans á 3. ársfjórðungi, og raunar gera margir ráð fyrir því að greitt aðgengi að lánsfé á lágu áhættuálagi sem einkennt hefur undanfarin misseri á alþjóðamörkuðum sé liðin tíð, að minnsta kosti í bili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×