Viðskipti innlent

VGK-Hönnun fær risaverkefni í Ungverjalandi

VGK-Hönnun hefur samið við ungverska fyrirtækið Pannonplast Zrt um umsjón og hönnun á átta nýjum jarðvarmavirkjunum í Ungverjalandi. Umfang verkefnisins er um 30 milljarðar kr. og má reikna með að VGK-Hönnun fái um 5% í sinn hlut eða um 1,5 milljarða króna.

Runólfur Maack framkvæmdastjóri VGK-Hönnun hefur dvalið í Ungverjalandi sökum þessa verkefnis megnið af árinu. Hann segir í samtali við Vísi að þessar átta nýju virkjanir séu aðeins upphafið og að reikna megi með fleiri verkefnum sem VGK-Hönnun fái út úr samstarfinu við Pannonplast.

"Við höfum verið 2 til 3 frá VGK-Hönnun úti í Úngverjalandi sökum þessa verkefnis en reiknum með 12 til 15 starfsmönnum frá okkur þegar þetta kemst á fullt skrið," segir Runólfur. "Við munum sjá um allt fyrir Ungverjanna það er undirbúning, hönnun mannvirkja, tengslin við framleiðendur á tækjabúnaði og svo framvegis."

Aðspurður um tilurð þessa samnings við Pannonplast segir Runólfur að Íslendingar hafi einfaldlega svo gott orð á sér í þessum málaflokk að oft sé leitað til þeirra að fyrrabragði. Svo hafi verið í þessu sambandi.

Pannonplast hefur hingað til aðallega standað framleiðslu á vörum úr plasti eins og nafnið gefur til kynna. Fyrirtækið er skráð í Kauphöllinni í Búdapest og tilkynnti fyrir helgi áform sín um virkjanirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×