Viðskipti innlent

Vodofone rekur stærsta víðnet landsins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone skrifuðu á fimmtudag undir samning þess efnis að Vodafone sjái um reksturs stærsta víðnets landsins næstu ár fyrir Menntamálaráðuneytið. Um er að ræða tölvunet sem tengir saman alla framhaldsskóla landsins og símenntunarstöðvar um allt land, samtals um 70 menntastofnanir.

 

Samningurinn er gerður að undangengnu útboði Ríkiskaupa, þar sem fjögur fjarskiptafyrirtæki sóttust eftir viðskiptunum. Við mat á innsendum tilboðum voru ýmsir þættir þeirra skoðaðir, þ.m.t. þjónustustig, áreiðanleiki, verð þjónustunnar og þekking starfsmanna. Að loknum þeim samanburði ákváðu Ríkiskaup að semja við Vodafone til næstu þriggja ára en því til viðbótar er heimilt að framlengja samningstímann þrisvar sinnum um eitt ár í senn.

 

Árni Pétur Jónsson segir það mikla viðurkenningu fyrir Vodafone að hafa verið valið til að sinna þessari mikilvægu þjónustu, þrátt fyrir að hafa ekki boðið lægsta verðið. "Við fögnum því að horft sé til þjónustustigsins, þekkingarinnar og reynslunnar en ekki eingöngu verðsins. Við leggjum áherslu á að veita góða þjónustu, burtséð frá því hvaða tækni býr að baki henni, og þessi niðurstaða Ríkiskaupa er staðfesting á því að slíkt kunna viðskiptavinir okkar að meta," segir Árni Pétur í frétt um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×